myndlistasýning í Víðihlíð

LISTAMENNIRNIR

Björk Guðnadóttir hefur löngum unnið að verkum þar sem sjónrænar áherslur og líkamlegar tilfinningar mætast í óstöðugu jafnvægi hugar og handar. Verk hennar eru gjarnan innsetningar, teikningar, hlutir og verk sniðin úr efni, sérkennileg sjónræn upplifun sem í reynd verður ekki að raunverulegri heild fyrr en áhorfandinn nær að víkja sér undan ofurvaldi sjónarinnar og skoðar verkin út frá tilfinningu snertingar og líkama.

Verkin eru sjáanleg en gerð þeirra ber snertingu og líkama verunnar stöðugt merki. Vísun í þetta er einnig sterk í verkum hennar nú – hún býr til, að því er virðist, óhlutbundna mynd tveggja þríhyrninga. Verkin eru staðsett sjónrænt í rýminu en aðferðin við gerð þeirra tengir þau við gjörninginn: í þeim er falin sú hugsun að ef til vill verði prjónlesið öðruvísi ef byrjað er að vinna löngu hliðina og síðan unnið inn á við í odd þríhyrningsins heldur en ef byrjað er í oddinum og aukið út í lengstu hliðina.

Áhorfandinn horfir á efnið, hann finnur fyrir hlýju sjalsins á hörundi sínu þegar það umlykur hann, og hann veltir því fyrir sér hvort snertingin sé önnur eftir því á hvorum endanum listakonan byrjaði. Með sömu vísun í líkamann staðsetur Björk dálítið verk búið til úr sjónglerjum í auðan glugga dyra við inngang Víðihlíðar. Þar þarf áhorfandinn að beygja sig niður til að sjá misbrotna og bjagaða mynd umhverfisins sem blasir við þegar horft er yfir tilfinningahlaðið umhverfi staðarins.

HH

Helga Óskarsdóttir hefur um langt skeið unnið með örsmáar mannvistaleyfar sem merkja umhverfi borgarinnar. Hugmyndaheimur Helgu gengur inn í líkama borgarinnar, þrýstir sér inn fyrir hann í þeirri viðleitni sinni að ná innfyrir, undir yfirborðið. Þannig birtir Helga okkur áferðir af menningarlegum líkama borgarinnar. Hin örsmáu ör, hnúðar og skellur sem skapaðar hafa verið af manna völdum inn í borgarlandslagið ganga inn í hugarheim hennar, þar bólgna áferðirnar út, valda þrýstingi þar til þeim er loks varpað á brott, þrýst upp með myndmáli.

Verkin sem Helga sýnir í Víðihlíð sýna ör á líkama hússins, örin varpast fram að vitund áhorfenda úr annarri vídd, skapaðri með samsömun Helgu við efni og áferð. Myndheimurinn tekur áhorfandann undir yfirborðið, á bak við áferðirnar, inn í hliðarvíddir efnisheimsins. Verkin eru spegill að handan hins áþreifanlega, settur upp í því skyni að gefa áhorfendum kost á því að spegla sig þaðan.

Helga Þórsdóttir er listakona sem lengi hefur tekist á við sjálfskynjun fólks í menningarlegu samhengi umhverfisins. Á sýningu hennar sem stendur yfir á vegum FUGLs í Slippnum á Skólavörðustíg tók hún sér fyrir hendur að skrásetja og birta sjálfsprottna fagurfræði eftirstríðsáranna og hvernig hún birtist í umhverfi fólks. Í verki sínu í Víðihlíð birtir hún áráttukennda ásýnd „konunnar“ þar sem hún birtist í fagurfræðilegu hlutverki sköpunar og þjónustu, sem kvenvél. Helga umbreytir sjálfri sér í persónu sem tekst á við ímyndaðan reynslu- og neysluheim kvenna á öldinni sem leið, persónu sem tekst prúðbúin á við fagurfræði eldhússins. Undir athafnagleðinni hljómar upplestur helstu skáldkvenna tuttugustu aldarinnar þar sem þær takast á kröftugan hátt á við hlutverk sem konum er skipað í. Það er við þennan undirtón sem kvenvél Helgu atast og bakar fyrir gesti dýrindis múffur sem eru siðlausar í ofgnótt sinni og tilgangsleysi. Verkið er unnið inn í ákveðna staðhætti rýmisins, það þröngvar átökum tilgangslausrar sköpunar og raunverulegum mætti skáldskapar inn í rýmið þar sem áhorfandinn þarf að berjast við að finna sér og sínum skoðunum stað.

(Allur ágóði af sölu múffanna rennur til starfsemi Víðihlíðar).

HH

Landspítali Kleppi, áður Kleppsspítali, er geðspítali sem tilheyrir geðsviði Landspítalans. Hann er oft í daglegu máli nefndur Kleppur.  Gestir staðarins eru því Klepparar, sem orðið er virkt samheitalýsingarorð yfir geðsjúkdóma.  Þannig er nafnið á lóð Klepps, sem Víðihlíð stendur á, afar merkingabært sem eitthvað eitt ákveðið ástand á stað.

Hlynur Helgason tekur fyrir staðbundið umhverfi Víðihlíðar, þar sem hann dregur inn í linsuna jörðina, sjóinn, gróður og menningarlegt umhverfi mannvista. Hlynur sýnir gestum sínum staðinn eins og hann er, nákvæmlega. Moldin, sem kölluð er Kleppur, breytist í staðleysu, mold einhversstaðar frá. Hlynur losar áhorfandann frá staðbundnu goðsögulegu ástandi Klepps með því að sýna þeim Klepp. Moldin er partur af jarðskorpunni sem hefur þann tilgang helstan að næra gróður. Þannig færir Hlynur áhorfandann nær raunvirkni náttúru Klepps, losar um hinn goðsögulega anda sem umlykur hana. Staðurinn verður staðbundin staðleysa sem loftar um og gefur áhorfendum færi á að metta verkin nýrri virkni, öðru ástandi.

Karlotta Blöndal hefur gjarnan í verkum sínum skoðað hvernig fólk bregst við umhverfi sínu og hvernig skynjun og minningar birta raunveruleikann á ómeðvitaðan hátt. Í verki sínu fyrir þessa sýningu skapar hún verk þar sem búið er að skoða umhverfi Víðihlíðar og innviði á grafískan hátt, þar sem búið er að taka rýmið og innbyrða það – túlka – þannig að útkoman verður hugkort sem lýsir rýminu eins og það verður í minningunni eftirá þar sem stærðir, hlutföll og afstaða er flæðandi og breytileg. Teikning rýmisins er sett fram sem línuspil í lituðum fleti þar sem reynir á skynjunina við túlkunina – indigóblár skapar sterka andstæðu við hvítar línurnar á meðan skærgulur flöturinn er fylltur ljósi en drekkir teikningunni jafnframt. Andstæðan birtist einnig í því að því er umsnúið hvað er upp og hvað er niður á milli myndanna.

HH

Le Corbusier skrifar árið 1925, hús eru vélar sem búið er í, samkvæmt honum sjá náttúrulegar þarfir lífverunnar fyrir uppröðun innanhúsrýma eftir virkni þeirra. Mikilvægasta rými hússins samkvæmt Le Corbusier er eldhúsið, með þeim rökum að framar öllu öðru verði maðurinn að næra sig. Þannig er sú framleiðsla sem fer fram í eldhúsinu manninum lífsnauðsynleg.

Ólöf Björnsdóttir bíður sýningargestum inn í eldhús Víðihlíðar. Þar sýnir hún átta teikningar sem upphaflega voru framleiddar sem hugmynd af merki Geðlæknafélagsins. Í því ferli gengur Ólöf inn í hugmyndina um huga eða heila mansins þannig að úr verða verk í fullkominni andstöðu við upphaflegt kapítalískt markmið þeirra. Innri myndheimur Ólafar tekur yfir framleiðsluna og gefur henni framandi krydd hins ósjálfráða. Skuldbinding Ólafar við hugmyndina breytir einföldu merki í áráttukennda ástundun.

Breski listfræðingurinn Griselda Pollock setur fram í bók sinni Vision and Difference  árið 2003 þá hugmynd að á list beri að líta sem ástundun í stað framleiðslu. Í hugtakaheimi Pollock eru framleiðsla/ástundun andstæðupar, þar sem framleiðsluna er hægt að vigta og meta samkvæmt viðurkenndum stöðlum hvers tíma en ekki ástundunina sem alltaf er huglæg, ósamrýmanleg við mikið, meira, mest. Með þessum hætti vonast Pollock eftir því skapa ný viðmið í listum.

Einhversstaðar á sömu slóðum finnum við myndheim Ólafar Björnsdóttur, sem er sífellt á hreyfingu í þróun aldrei kyrr eða tilbúin. Gott dæmi um þetta er verkið mæður sem aðstandendur, hér tekur Ólöf  tvær andlitsmyndir mæðra í stöðu aðstandenda, á sama tíma og eldhúsið í Víðihlíð verður staður til þess að ræða við konur í slíkri stöðu. Ólöf ljær þeim eyra og verkið þróast í takt við þær. Þannig er hægt að tala um verk Ólafar sem menningarlega ástundun sem setur sig í andstöðu við kapítalíska framleiðslu.